Biskupstungur:

Hart deilt um leigu á Tungufljóti

Talsverðar deilur hafa spunnist vegna samnings Tungufljótsdeildar Veiðifélags Árnesinga við Lax-á ehf um veiðiréttindi í neðanverðu Tungufljóti í Biskupstungum.  Deilt er um leigusamning sem sumir landeigendur segja gerðan í óþökk við sig en meirihluti veiðirétthafa samþykkti samninginn við Lax-á.  Þá eru einnig deilur um áhrif sleppinga á laxaseiðum í Tungufljótið á silungastofninn í ánni.

Lax-á ehf hefur frá árinu 2003 leigt Tungufljót ofan Vatnsleysufoss af landeigendum og sleppt laxi í ána. Fyrirtækið fékk upphaflega hrogn til verksins frá Veiðifélagi Árnesinga en hefur nú ræktað upp seiði úr þessum stofni í Borgarfirði.  Árni Baldursson, eigandi Lax-ár ehf., segir verkefnið hafa tekist vonum framar og 2008 hafi Tungufljót verið ein af 10 bestu ám landsins með 2500 löxum.  Stefnt sé að því að gera Tungufljót að sjálfbærri laxveiðiá og landnám laxins sé hafið upp alla ána.

Nú í ár var gerður samningur til 10 ára við nýstofnaða Tungufljótsdeild Veiðifélags Árnesinga um leigu á neðri hluta árinnar.  Segir Árni að vissulega sé þetta mikil fjárhagsleg áhætta fyrir hann því mikill kostnaður hafi verið lagður í uppbyggingu laxastiga við Vatnsleysufoss og sleppingar og enn sé óljóst um árangur.  Seld séu þó veiðileyfi til að hafa upp í kostnað og arður af þeim greiddur til landeigenda.

Drífa Kristjánsdóttir er formaður Tungufljótsdeildar Veiðifélags Árnesinga sem telur 26 landeigendur.  Hún segir verkefnið vera mikilvægt hagsmunamál fyrir landeigendur sem skapi þeim og samfélaginu miklar tekjur.  Drífa viðurkennir þó líkt og um svo margt séu skiptar skoðanir um verkefnið.  Áhyggjur hafa verið uppi um hvort silungur verði útrýmt af laxinum en Drífa seigir veiðimenn á sínu svæði hafa sagt vera mikið af silungi í ánni. Ólafur J. Bjarnason, einn landeigenda á Bergstöðum, segir hins vegar laxinn nú nánast hafa útrýmt silungnum sem áður var sjálfbær í ánni. Ólafur er einn af þeim sem hefur gagnrýnt mjög laxasleppingar í ána og leigu Tungufljótsdeildar á veiðileyfum í Tungufljóti. Hann telur vafasamt að Tungufljótsdeildin hafi rétt til að leigja veiðileyfi frá landeigendum í óþökk þeirra og að landeigendur hyggjast leita réttar síns fyrir dómstólum.  Bendir Ólafur á að landeigendur Bergstaða, Fellskots, Fells, Króks og Höfða hafi lýst sig andsnúna áformum Tungufljótsdeildar og að þeir ráði yfir um 45% bakkalengdar Tungufljóts en séu ofurliði bornir í atkvæðamagni innan deildarinnar.  Þá telja þeir reglur Veiðifélags Árnesinga um ráðstöfun veiðiréttar með ársfyrirvara hafi verið brotnar og að þeir hafi fullan rétt til að veiða áfram fyrir sínu landi þetta árið. Um þetta hafa staðið nokkrar deildur og hefur lögregla verið kölluð til vegna veiði landeigenda við Bergstaði.

Blaðamaður Sunnlenska bar þetta viðkvæma mál undir Karl Axelsson, hæstaréttarlögmann og dósent við lagadeild háskólans. Karl sagði að skv. Lax og silungsveiðilögum nr. 61/2006 væri tekið skýrt fram að veiðifélög væru bær til að leigja út veiðiréttindi áa og að eitt atkvæði fylgdi hverri jörð.  Hann taldi að vissulega mætti reyna hvort veiðifélagaformið stæðist stjórnarskrá fyrir dómi en það væri erfitt og flókið mál og óvíst um árangur af slíkum málaferlum.  /SKS

Grein úr Sunnlenska Fréttablaðinu – 32. TBL. 20. ÁRG. 12. Ágúst 2010