28. nóvember 2010.

Kæra á okkur hjón á Bergstöðum.

_________________________

Eftirtalið hefur okkur verið birt:

„LÖGREGLUSTJÓRINN Á SELFOSSI
gjörir kunnugt:

Að höfða beri sakamál fyrir Héraðsdómi Suðurlands á hendur
Ólafi J Bjarnasyni, kt. 090447-6379
Reykjavegi 82,Mosfellsbæ
&
Ásu Einarsdóttur,kt. 110650-5589
Reykjavegi 82,Mosfellsbæ

fyrir brot á lögum um lax- og silungsveiði
með því að hafa síðdegis sunnudaginn 4.júlí 2010 stundað stangveiði í Tungufljóti í Árnessýslu fyrir landi Bergstaða í Bláskógabyggð,án þess að hafa til þess leyfi,þar sem Tungufljótsdeild Veiðfélags Árnesinga ákvað á fundi sínum þann 12. apríl 2010 að leigja veiðirétt í Tungufljóti til 5 ára og voru því lax- og silungsveiðar á umræddum tíma og stað óheimilar öðrum en leigutaka og þeim er hann hafði ráðstafað veiði til.

Telst brot ákærðu varða við a.lið 1.mgr.50.gr.laga um lax-og silungsveiði nr.61,2006.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Greinargerð okkar og svar er svohljóðandi:
„Við vorum að veiðum umræddan dag og höfðum til þess fullan rétt, sem land- og veiðiréttareigendur og vorum í þeirri góðu trú, að ákvörðun sú sem tekin var á aðalfundi VÁ 2009 um veiðitilhögun 2010 væri rétt og gilti sbr. 11. lið fundargerðar, svohljóðandi:

Aðalfundur Veiðifélags Árnesinga haldinn að Þingborg 21. apríl 2009 samþykkir að árið 2010 sé félagsmönnum Veiðifélags Árnesinga á vatnasvæði Ölfusár-Hvítár frjálst hverjum fyrir landi sinnar jarðar að veiða silung frá og með 1. apríl og lax frá og með 20. júní til og með 9. ágúst og frá og með 20. ágúst til og með 24. september, en deildir geti þó ákveðið að veiðitími hefjist og honum ljúki síðar innan þeirra marka sem lög um lax-og silungsveiði setja. Sami veiðidagafjöldi á við um deildir sem um aðra félagsmenn. Veiða má í lagnet, króknet eða á stöng í samræmi við fyrirmæli laga nr. 61/2006 um lax og silungsveiði. Daglegur veiðitími á laxi og göngusilungi fer saman frá kl. 7-13 og 16-22. Eftir 20. ágúst frá kl. 7-13 og 15-21. Daglegur veiðitími staðbundins silungs frá kl. 8-21.

Um þessa veiðitilhögun spurði Vilhjálmur Einarsson sérstaklega á aðalfundi Veiðifélags Árnesinga Á 2010. Voru þá ekki bornar neinar brigður á að þessi samþykkt væri í fullu gildi.

Þessi ástæða ein ætti að nægja til að við hjón séum í fullum rétti.

Eftirtalin atriði skulu nefnd til viðbótar:

1. Tungufljótsdeild VÁ er sögð hafa ákveðið á fundi sínum að leigja veiðirétt í Tungufljóti til 5 ára. Því hefur verið haldið fram af forsvarsmönnum Tungufljótsdeildar að þessi deild hafi hærri réttarstöðu en móðurfélagið, sem er Veiðifélag Árnesinga.Þetta stenst auðvitað enga skoðun.

2. Veiðfélag Árnesinga nær yfir allt vatnasvæði Hvítár frá upptökum til ósa.Einstaka deildir eru aðeins stofnaðar og geta aðeins starfað í leyfi þess. Öllum sem að veiðum koma ber skýlaust að hlíta öllum þeim reglum sem Veiðfélagið hefur ákveðið og fyrir einstakar deildir lagt. Þar sem Veiðfélag Árnesinga hafði ákveðið að úthluta veiði vegna ársins 2010 sbr. 11. lið í fundargerðinni frá aðalfundinum 2009, þá geta einstakar deildir eða fyrirsvarsmenn þeirra ekki breytt þeirri ákvörðun.

3. Í 5. gr. Samþykktar fyrir Veiðfélag Árnesinga nr. 991 segir:
„Óheimilt er öllum að veiða á félagssvæðinu nema aðalfundur eða annar fundur í félaginu, löglega boðaður, samþykki. Í samþykkt fundar skal tekið fram um veiðitíma og veiðitæki og samkvæmt þeim takmörkum sem lög og reglugerðir setja. Félagsmenn geta aðeins rásðstafað veiði til eins árs í senn, nema lögmætur fundur samþykki og tekið sé fram í fundarboði að lengri leigutími verði til umræðu.

Tungufljótsdeild hefur ítrekað þverskallast við að fara eftir settum leikreglum.

Kæra okkar varðandi stofnun og atkvæðagreiðslur á aðalfundi Veiðideildar Tungufljóts svo og um ólögmæta starfsemi deildarinnar var send Fiskistofu dags. 22. júlí 2009. Svar barst í febrúar 2010 nærri hundrað dögum umfram lögboðinn 90 daga frest.

Kæra okkar var mjög ítarleg og rökstudd á nærri 8 blaðsíðum.

Þegar Fiskistofa felldi sinn úrskurð í febrúar 2010 var nánast ekkert tekið mið af þeim kæruefnum sem getið var og þeir kusu að horfa aðeins á þann 10 daga frest fundarboða sem raunar var aðeins, þrátt fyrir úrskurð Fiskistofu, 8 dagar.
En hafi menn í huga að hér var um stofnfund veiðideildar að ræða eins og bent er á í kærunni.

„ Um stofnfundi og boðun til þeirra segir í Reglugerð nr. 1024 um starfsemi veiðifélaga í 2 .gr.:

Til stofnfundar veiðifélags skal boða alla þekkta veiðiréttarhafa á fyrirhuguðu félagssvæði sbr. 12. gr.laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Stofnfund skal boða skriflega með ábyrgðarbréfi eigi síðar en 14 dögum fyrir fundardag.Á stofnfundi skal liggja fyrir ákvörðun Landbúnaðarstofnunar um umdæmi veiðifélags. Fundur er löglegur ef hann er löglega boðaður.“

Bergstaðamenn hafa margítrekað kallað eftir þeim samningi sem forvarsmenn veiðideildarinnar segjast hafa gert við Árna Baldursson. Þó ekki væri nema til að sjá um hvað hann fjallaði. Hefur þeim og lögmanni þeirra sem og einnig stjórn Veiðifélag Árnesinga svo ótrúlegt sem það er, ítrekað verið neitað um að fá afrit samningsins. Þetta framferði er sagt vera með fullri vitneskju Fiskistofu, sem þrátt fyrir þetta augljósa ólögmæti virðist fremur draga taum hinnar svokölluðu „Tungufljótsdeildar” án þess að gæta líka réttar mótaðilans. Þetta tómlæti hinnar opinberu Fiskistofu er svo notað til að ákæra landeigendur að Bergstöðum og löglega veiðiréttareigendur jarðarinnar fyrir veiðiþjófnað fyrir eigin landi.

Eigendahópur Bergstaða vilja njóta eignar sinnar á Bergstöðum með öllum þeim gæðum og göngum sem henni fylgja. Þeir telja veiðrétinn tilheyra jörðinni, og verði ekki frá henni skilinn með slembiákvörðun nágranna okkar sem nú standa að ólögmætu hafbeitarverkefni með utanaðkomandi aðila án þess að hafa fengið tilskilin leyfi móðurfélagsins til seiðasleppinga. Veiðirétturinn hefur verið nýttur af okkur allar götur síðan 1968. Í þessu sambandi er rétt að minna á 72. grein Stjórnarskrár Íslands sem hljóðar þannig: „Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til þess að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.“

Stofnendur Tungufljótsdeildar eru að hluta til frá jörðum sem aldrei hafa talið sig eiga veiðirétt skv. skattamati hlunninda né greitt skatta af slíkum hlunnindum. Það vekur því furðu að fulltrúar þessara jarða telja sig geta komið á stofnfund veiðideildar og borið lögmæta veiðréttarhafa ofurliði með atkvæðum sínum. Að því búnu ráðstafað rétti þeirra til ólögmæts hafbeitarverkefnis Árna Baldurssonar fyrir hönd alþjóðlegs útrásarfyrirtækis síns Lax-ár. Ólögmætar seiðasleppingar þessa fyrirtækis leiddu svo til útrýmingar þess bleikjustofns, sem í Tungufljótinu hafði þraukað um aldir og Tungnamenn hafa nýtt sér.

Einnig má vekja athygli á þeim blekkingum sem á borð eru bornar þegar því er haldið fram að verið væri að rækta upp sjálfbærar laxnytjaveiðar í Tungufljóti.

Þarna hefur verið sleppt framandi laxastofnum á vatnasvæði Hvítár sem nýtist ágætlega til veiðileyfasölu Lax-ár á hafbeitarlaxi. Þessi lax mun hverfa jafnharðan og seiðagjöf er hætt, samkvæmt hlutlausu mati Jóns Kristjánssonar fiskifræðings sem í fáum orðum felst sú staðreynd, að væru náttúrleg skilyrði í Tungufljóti fyrir lax þá hefði hann verið þar um aldir. En svo er ekki. Þar var hinsvegar staðbundinn bleikjustofn sem nú hefur verið eyðilagður með þessu ofbeldi þeirra aðila sem að þessu standa.

Þá er Tungufljót skilið eftir líflaust þar sem áður var blómleg bleikjuveiði sem margir bændur nýttu sér og greiddu skatt af sínum hlunnindum.

Mörg ár mun taka að byggja upp lífríkið aftur eftir þessa siðlausu innrás og hvernig réttlaust fólk er notað á stofnfundi til að bera lögmæta veiðiréttarhafa ofurliði á grundvelli þannig ólögmætrar atkvæðagreiðslu. Auk þessa greiddu fulltrúar einstakra jarða mörg atkvæði í stað eins á grundvelli síðari tíma landskipta.

Veiðideild Tungufljóts var því aldrei löglega stofnuð né hefur það löglega starfað eftir lögum og reglum Veiðfélags Árnesinga.

Eftirfarandi sýnir glöggt hvernig málið er vaxið:
Áritun Gauks Jörundssonar á;

“Samning um leigu stangveiðiréttar í Tungufljóti og ræktun árinnar” dagsett í Kaldaðarnesi hinn 18. ágúst 2003.
Veiðfélag Árnesinga er ekki aðili þessa samnings. Að því hinsvegar tilskyldu að eigendur réttar til lax og silungsveiða í Tungufljóti á Félagssvæði Veiðifélags Árnesinga gerist aðilar samningsins, samþykkir félagið ( Veiðif. Árn. ) samninginn fyrir sitt leyti með þeim takmörkunum, sem heimildum félagsins eru settar lögum samkvæmt.

Ræktun þar með taldar seiðasleppingar verði í samkomulagi við Veiðimálastofnun og Veiðifélags Árnessýslu og háð samþykki þess..

Undirritað:
F.h. stjórnar Veiðif. Árn.

Kaldaðarnesi 18. ágúst 2003

Gaukur Jörundsson (sign.)

Þessi áritun tekur af öll tvímæli um það, hversu gersamlega hefur verið farið á svig við vilja Veiðifélags Árnesinga af því fólki sem hefur ranglega útnefnt sjálft sig sem umboðsmenn Tungufljóts og veiðréttarhafa og var samningnum hafnað. Starfsemi þessa og yfirgang ber að stöðva að réttum lögum.