Ú R S K U R Ð U R

2. mars 2011

Mál nr.            S-521/2010:

Ákærandi:       Sýslumaðurinn á Selfossi

(Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður)

Ákærðu:          Ólafur J Bjarnason og

Ása Einarsdóttir

(Arnar Þór Jónsson hdl)

Dómari:           Sigurður G. Gíslason héraðsdómari

Ár 2011, miðvikudaginn 2. mars, er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands, sem háð er að Austurvegi 4, Selfossi, kveðinn upp í máli nr. S-521/2010:

Lögreglustjórinn á Selfossi

(Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri)

gegn

Ólafi J. Bjarnasyni og Ásu Einarsdóttur

(Arnar Þór Jónsson hdl.)

svofelldur

úrskurður :

Mál þetta, sem þingfest var þann 9. desember sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi dagsettri 3. nóvember 2010 á hendur Ólafi J. Bjarnasyni, kt. 090447-6379 og Ásu Einarsdóttur, kt. 110650-5589, bæði til heimilis að Reykjavegi 82, Mosfellsbæ,

„fyrir brot á lögum um lax- og silungsveiði

með því að hafa síðdegis sunnudaginn 4. júlí 2010 stundað stangveiði í Tungufljóti í Árnessýslu fyrir landi Bergstaða í Bláskógabyggð, án þess að hafa til þess leyfi, þar sem Tungufljótsdeild Veiðifélags Árnesinga ákvað á aðalfundi sínum þann 12. apríl 2010 að leigja veiðirétt í Tungufljóti til 5 ára og voru því lax- og silungsveiðar á umræddum tíma og stað óheimilar öðrum en leigutaka og þeim er hann hafði ráðstafað veiði til.

Telst brot ákærðu varða við a. lið 1. mgr. 50. gr. laga um lax- og silungsveiði nr. 61, 2006.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Ákærðu sóttu bæði þing við þingfestingu málsins, ásamt Arnari Þór Jónssyni hdl. sem var þar skipaður verjandi ákærðu beggja að ósk þeirra.  Í þinghaldinu gerði verjandi ákærðu kröfu um frávísun málsins og var kröfu þeirri mótmælt af hálfu ákæruvaldsins.  Var málinu þá frestað til málflutnings um frávísunarkröfu. Fór munnlegur málflutningur um frávísunarkröfuna fram þann 14. janúar sl. og var krafan, að honum loknum, tekin til úrskurðar.

Málavextir:

Upphaf máls þessa er það að þann 3. júlí 2010 hafði Drífa Kristjánsdóttir, forsvarsmaður Tungufljótsdeildar Veiðifélags Árnesinga, samband við lögreglu og tilkynnti að 3 menn væru að veiðum á austurbakka Tungufljóts undan landi Bergstaða í Biskupstungum, en það væri ekki heimilt þar sem deildin hefði leigt veiðiréttinn út.  Veiðivörður væri ekki til taks og því væri leitað til lögreglu.  Vegna anna við önnur mál gat lögregla ekki sinnt þessu með því að fara á vettvang.  Daginn eftir, þann 4. júlí 2010, hafði Drífa aftur samband við lögreglu og tilkynnti um 2 menn að veiðum á sama stað og daginn áður.  Fór þá lögregla á vettvang og hitti fyrir á veiðum ákærðu í máli þessu og hafði af þeim tal.  Í rannsóknargögnum málsins er skýrsla um samtal lögreglu við ákærða umrætt sinn.  Ekki er þar getið um stöðu þeirra við rannsókn máls en nöfn þeirra sett í reit sem auðkenndur er með orðunum „Aukaaðilar – annað“.  Er í meginmáli skýrslunnar ekki vikið að því að þau kunni að hafa stöðu sem  sakborningar og einskis getið sem leiða megi af slíka réttarstöðu.  Voru ákærðu ekki stöðvuð við veiðarnar.

Í rannsóknargögnum er skýrsla lögreglu sem ber fyrirsögnina „Upplýsingaskýrsla“.  Þar er sagt frá því að Drífa Kristjánsdóttir hafi komið og lagt fram kæru á hendur ákærðu.  Jafnframt er upplýst að aflað hafi verið upplýsinga frá Fiskistofu með samtali við yfirlögfræðing þar á bæ.  Þá kemur það fram í upplýsingaskýrslunni að lögreglumaður sem ritar skýrsluna, sem er óvottuð, hafi haft símleiðis samband við annan ákærðu í málinu, þ.e. ákærða Ólaf.  Hafi honum verið gerð grein fyrir fram kominni kæru og að ákærði nyti réttarstöðu sakbornings við rannsókn málsins, án þess að lýst sé á nokkurn handa máta í hverju sú réttarstaða sé fólgin og hvert sé efnislegt inntak hennar.  Kemur ekki fram að áminnt hafi verið um sannsögli.  Er svo í upplýsingaskýrslunni skráður niður eftir ákærða framburður hans.  Kemur ekki fram í skýrslunni að ákærða hafi verið kynntur réttur hans til að tjá sig ekki um ætlaðar sakargiftir, sbr. 2. mgr. 64. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.  Ekki kemur heldur fram að ákærða hafi verið kynntur réttur hans til að fá tilnefndan verjanda, sbr. 2. mgr. 30. gr. og 1. mgr. 33. gr. nefndra laga.  Ekkert kemur fram um að ákærða hafi verið gefið tækifæri á að yfirfara það sem eftir honum var haft við skýrslugjöfina, sbr. 2. mgr. 66. gr. laga nr. 88/2008, enda örðugt þar sem um símaskýrslu var að ræða.  Ekki voru teknar aðrar skýrslur af ákærða Ólafi við rannsókn málsins.

Í rannsóknargögnum er skýrsla lögreglu sem ber yfirskriftina „Óformleg skýrsla af sakborningi, Ásu Einarsdóttur.“  Þar kemur fram að ákærða Ása hafi verið yfirheyrð í síma vegna kæru Drífu.  Ákærðu hafi verið kynnt sakarefnið og réttarstaða hennar um að hún þyrfti ekki að svara spurningum sem varða sakarefnið og að hún ætti rétt á að fá tilnefndan verjanda og óskaði hún eftir að Arnar Þór Jónsson hdl. yrði tilnefndur.  Er svo í upplýsingaskýrslunni skráður niður eftir ákærðu framburður hennar.  Ekkert kemur fram um að ákærðu hafi verið gefið tækifæri á að yfirfara það sem eftir henni var haft við skýrslugjöfina, sbr. 2. mgr. 66. gr. laga nr. 88/2008, enda örðugt þar sem um símaskýrslu var að ræða.  Skýrslan er óvottuð.  Ekki voru teknar aðrar skýrslur af ákærðu Ásu við rannsókn málsins.

Niðurstaða:

Samkvæmt 1. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 er það markmið rannsóknar að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til sakar, svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferð fyrir dómi.  Á meðal þeirra gagna sem óhjákvæmilegt er að afla við rannsókn máls eru framburðarskýrslur sakbornings.  Mikilvægt er að þær skýrslur séu teknar lögum samkvæmt, en það horfir bæði til þess að tryggja lögbundin réttindi sakbornings, en jafnframt til þess að þau gögn séu vönduð og vel unnin sem ákærandinn byggir sína ákvörðun um saksókn á.

Það er mat dómsins að réttinda sakborninga í málinu, við skýrslugjöf þeirra hjá lögreglu, hafi ekki verið gætt með fullnægjandi hætti.  Skortir þar mikið á, einkum varðandi skýrslugjöf ákærða Ólafs.  Þá er það mat dómsins að framburðarskýrslur sakborninga hjá lögreglu hafi verið teknar með svo óvönduðum hætti að ekki sé fullnægt áskilnaði 1. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 um nauðsynlega gagnaöflun við rannsókn máls.

Með hliðsjón af ofansögðu er óhjákvæmilegt að vísa ákæru í málinu frá dómi.

Málsvarnarlaun skipaðs verjanda beggja ákærðu, Arnars Þórs Jónssonar hdl., kr. 150.000, greiðist úr ríkissjóði, sbr. 218. gr. laga nr. 88/2008, en samkvæmt gögnum málsins er ekki um annan sakarkostnað að ræða.  Hefur verið tekið tillit til aksturs og virðisaukaskatts við ákvörðun málsvarnarlaunanna.

Uppkvaðning úrskurðar hefur dregist vegna veikinda dómara, en sakflytjendur voru sammála því mati dómsins að endurflutningur væri óþarfur, sbr. 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Ákæru í máli þessu er vísað frá dómi.

Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, Arnars Þórs Jónssonar hdl., kr. 150.000, greiðast úr ríkissjóði.

Sigurður G. Gíslason